Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, segir þá eiginhagsmunahyggju sem einkennt hefur hagkerfi heimsins undanfarið, gæti leitt til versta efnahagssamdráttar síðan í heimskreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Beindi hann orðum sínum, að hluta til, að Bandaríkjunum.

Medvedev segir að ekkert ríki geti unnið gegn núverandi efnahagslægð upp á sitt einsdæmi. Jafnvel ekki Bandaríkin. Þetta sé alheimsvandamál og mikilvægt sé að Rússar leggi sitt af mörkum.

Frá þessu er greint á fréttavef Bloomberg.

Efnahaglegur styrkur Rússlands gerir landið að alþjóðlegum þátttakanda, sem ætti að spila hlutverk í því að lagfæra hagkerfi.

Lét forsetinn þessi orð falla á alþjóðlegri hagfræðiráðstefnu í Pétursborg.

„Við viljum eiga þá þátt í því að koma á fót nýjum leikreglum, ekki út frá heimsvaldahyggju, heldur vegna þess að þáttaka okkar gæti verið nauðsynleg,” segir Medvedev.