Formlegt söluferli Innergex á 53,9% eignarhlut í HS Orku hófst í október 2018 og lauk endanlega í síðustu viku þegar Jarðvarmi, félag í eigu 14 lífeyrissjóða, nýtti forkaupsrétt sinn og festi kaup á hlutafé Innergex. Eftir viðskiptin er HS Orka til helminga í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða og breska fagfjárfestingafélagsins Ancala Partners.

Samhliða þessum var tæplega þriðjungs eignarhlutur HS Orku í Bláa Lóninu seldur nýju félagi, Blávarma, sem er í eigu sömu sjóða og standa að Jarðvarma. Verðmiðinn á hlutnum var 15 milljarðar króna sem þýðir að heildarverðmæti Bláa Lónsins er metið á 50 milljarða króna, sem er sama verð og í viðskiptum með eignarhluti Bláa lónsins síðastliðið haust. Mikill viðsnúningur hefur hins vegar átt sér stað í hagkerfinu síðan þá og allar áætlanir um fjölda ferðamanna hafa verið færðar mikið niður frá falli Wow. Davíð Rúdólfsson, stjórnarformaður Jarðvarma, segir að þrátt fyrir breytt umhverfi sé verðmiðinn á Bláa ekki of hár.

„Vissulega hafa ýmsar sviptingar átt sér stað í vetur en við teljum hins vegar að þær muni hafa takmörkuð áhrif á virði Bláa lónsins. Félagið býr að sérstöðu og er í þannig starfsemi að það er betur í stakk búið en flest önnur félög í innlendri ferðaþjónustu til þess að standa af sér ágjöf sem þessa,“ segir Davíð.

Áhrif lífeyrissjóðanna í íslensku viðskiptalífi eru mikil og þykir mörgum nóg um og oft má í umræðunni heyra gagnrýnisraddir sem telja mikil umsvif þeirra bjóða hættunni heim. Eftir kaupin eru áhrif lífeyrissjóðanna meiri og þeir nú í lykilstöðu til að marka stefnu félagsins til framtíðar. Er þetta æskileg þróun að mati Davíðs?

„Við erum meðvituð um þessi sjónarmið og þetta er vissulega nokkuð sem við höfum hugað að í þessu máli. Í fjárfestingum sem þessum er það þannig að hver lífeyrissjóður fyrir sig tekur ákvörðun um fjárfestinguna. Við gáfum okkur góðan tíma til þess að fara yfir slíkar spurningar í aðdraganda kaupanna.

Það komu fram margs konar sjónarmið í því samtali þegar fyrir lá þetta tækifæri til að auka við hlut okkar í félaginu. Við erum vissulega meðvituð um þau vandkvæði sem geta fylgt því að vera of stór í einstökum félögum og það sjónarmið á þátt í því að við kusum að fara þessa leið og ganga til samstarfs við meðfjárfesti með 50% hlut. Þannig að á endanum var þetta lendingin, að auka við eignarhlut okkar úr 33,4% í 50%,“ segir Davíð að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .