Hinn virti blaðamaður Anthony Hilton gerir aðgerðir breskra stjórnvalda gegn íslenskum bönkum að umtalsefni í pistli á vefsíðu Evening Standard. Hilton hefur um langt skeið unnið að viðskiptaumfjöllun og var um hríð viðskiptaritstjóri The Times.

Hilton leggur út af því mikla trausti sem fjármálaheimur Lundúna – City, nýtur meðal almennings og stjórnmálamanna. Hann segir hins vegar orðsporið hafa beðið verulega hnekki að undanförnu, ekki vegna við hegðunar breskra banka heldur aðgerða stjórnvalda. Hilton er ómyrkur í máli:

„Sú ákvörðun að virkja hryðjuverkalöggjöf til frysta eignir Íslendinga í Bretlandi var skammarleg. Ríkisstjórnin notaði vald sitt á þann hátt sem þeim var aldrei ætlað, og það gegn skotmarki sem hefði átt að hjálpa, í stað þess að sparka í liggjandi,“ segir hann í pistli sínum.

Hann segir að frysting íslenskra eigna hafi væntanlega verið ætlað að láta Gordon Brown líta út eins og harðjaxl í augum kjósenda: „Skeytingarleysið gagnvart afleiðingunum sem þetta hefur á jafnlitla þjóð skilur hins vegar eftir óbragð í munni,“ segir Hilton. „Enginn mun líta breska fjármálamarkaði sömu augum eftir þetta.“