Fullyrðingar í markaðsherferð olíufélagsins Dælunnar um að félagið bjóði bæði lægsta meðalverð íslenskra olíufélaga og besta mögulega eldsneytisverðið hverju sinni eru ósannaðar að mati Neytendastofu. Hins vegar telur stofnunin að fyrirtækið hafi getað fært sönnur á fullyrðingar sínar um að þeir bjóði lægsta verðið í Kópavogi.

Þar með hefur stofnunin bannað Dælunni að nota fyrri tvær fullyrðingarnar þar sem hún telur framsetningu auglýsinganna og afdráttarlausar fullyrðingarnar til þess fallnar að neytendur teldu Dæluna bjóða lægsta eldsneytisverð allra keppinautanna.

Þar komi hins vegar ekki fram í auglýsingunum hvað átt væri við með meðalverði eða hvaða olíufélög væru í samanburðinum en þar var Costco undanskilið sem Neytendastofa telur villandi í úrskurði sínum .

Jafnframt taldi stofnunin fullyrðingu um besta mögulega eldsneytisverð hverju sinni einnig villandi þar sem hvergi sé skýring á því hvað átt sé við besta verðið sem Dælan getur boðið hverju sinni.

Taldi Neytendastofa auglýsinguna villandi þar sem auðveldlega væri hægt að túlka fullyrðinguna þannig að Dælan væri ávallt með með lægsta mögulega verðið. Sú væri þó ekki raunin og því taldi Neytendastofa fullyrðingarnar villandi.