Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur með nýrri reglugerð heimilað lánastofnunum að hliðra endurgreiðslutíma stuðningslána í allt að sex mánuði til viðbótar við þann frest sem áður var gefinn. Lánstími stuðningslána getur nú farið upp í fimm og hálft ár.

Lánastofnunum verður einnig heimilt að lengja endurgreiðslutíma stuðningslána með fullri ábyrgð ríkissjóðs úr tólf mánuðum í allt að átján mánuði.

Stuðningslán voru veitt til að aðstoða smærri rekstraraðila sem urðu fyrir tímabundnu tekjutapi vegna Covid-faraldursins við að standa undir rekstrarkostnaði. Stuðningslánin gátu numið allt að 10% af tekjum fyrirtækja á rekstrarárinu 2019 en þó að hámarki 40 milljónir króna á hvert fyrirtæki.

„Með breytingunum nú verður lánastofnunum gert kleift að mæta betur stöðu rekstraraðila sem glíma enn við eftirmála tekjusamdráttar vegna heimsfaraldursins,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Veitt voru stuðningslán fyrir 10,1 milljarð króna til 997 lántaka. Í lok síðasta árs höfðu verið greidd stuðningslán upp að fullu fyrir ríflega 1,4 milljarða króna. Eftirstöðvar stuðningslána námu 7,8 milljörðum í lok síðasta árs.

Lánastofnanir gátu veitt stuðningslán með 85% ríkisábyrgð til lengri tíma en 30 mánaða. Tíu stuðningslán að andvirði samtals 59 milljónir króna höfðu fallið á ábyrgð ríkissjóðs í lok síðasta árs.