Breska ríkið hefur leyft byggingu nýs kjarnorkuvers að verðmæti 18 milljarða punda, eða 2,7 þúsund milljarða íslenskra króna.

Nýja verið sem staðsett er við Hinkley Point í Somerset, sem er á vesturströnd Englands, rétt fyrir sunnan Wales, er fjármagnað af Frökkum og Kínverjum.

Þegar mest verður er gert ráð fyrir 5.600 starfsmönnum við byggingu versins, að í því felist lagning 4.000 kílómetra langra rafmagnslína og að í verið verði notuð 230 þúsund tonn af stáli.

Fá 14 þúsund fyrir megavattstundina

Ríkisstjórnin hefur ekki breytt því að þeir munu tryggja að verið fái greiddar 92,50 pund, eða 14 þúsund krónur fyrir hverja megavattstund. Barry Gardiner, skuggaráðherra orkumála frá stjórnarandstöðunni, sagði það vera of hátt verð og hefði átt að endursemja um það.

Í ársskýrslu Landsvirkjunar árið 2015, er gefið upp meðalverð á raforku, var það í fyrra 24,5 Bandaríkjadalir, eða um 2.800 krónur á megavattstund til iðnaðar og lækkaði verðið um 1,4 dollara milli ára.

"Lækkun milli ára má meðal annars rekja til lækkunar á álverði, en einnig lækkunar á gengi norsku krónunnar. Meðalverð til iðnaðar er reiknað með flutningskostnaði, þar sem það er bundið í samninga," segir í skýrslunni.

Vilja nota kínverska hönnun

Í staðinn fyrir fjárfestingu sína vilja Kínverjar fá að nota hönnun sína í uppbyggingu á nýjum kjarnorkuverum í landinu. Hins vegar sagði ríkisstjórn Bretlands að þeir myndu „setja á nýtt lagaumhverfi fyrir framtíðarfjárfestingar erlendra aðila í grunninnviðum Bretlands.“

Gagnrýnendur verkefnisins hafa varað við hækkandi kostnaði og áhrifum þess að kjarnorkuver skyldu byggð í landinu af erlendum stjórnvöldum. Franska ríkisorkufyrirtækið EDF fjármagnar tvo þriðju af verkefninu, meðan fjárfesting Kínvera greiðir þá sex milljarða punda sem eftir standa.

Áhyggjur af þjóðaröryggi

Kínverjar samþykktu að taka þátt í fjármögnun kjarnorkuveranna í Hinkley og Sizewell í Suffolk, með þeim skilningi að bresk stjórnvöld myndu samþykkja að Kínverjar hanni og byggi kjarnorkuver í Essex, sem leitt hafa til spurninga um þjóðaröryggi.

„Í kjölfar Hinkley, mun breska ríksstjórnin taka sér hluta í öllum framtíðarkjarnorkuveraáformum. Þetta mun tryggja að ráðandi hlutir geti ekki verið seldir án vitundar og samþykkis ríkisstórnarinnar,“ segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Orkumálaráðherrann, Greg Clark sagði „Í tilviki Hinkley höfum við skilyrt EDF, til að heita því, að þeir muni ekki selja sinn hluta án samþykkis ríkisstjórnarinnar, og framtíðaráform um byggingu kjarnorkuvera munu undirgangast sömu reglur.“