Breska götublaðið Mail on Sunday hefur verið dæmt til að greiða hertogynjunni Meghan eitt breskt sterlingspund í bætur fyrir brot á friðhelgi einkalífs hertogynjunnar, en blaðið birti opinberlega bréf sem hún hafði ritað til föður síns, Thomas Markle. Þetta kemur fram í frétt hjá Guardian .

Í dómnum kemur einnig fram að blaðið hafi viðurkennt tap í málinu og muni ekki áfrýja til hæstaréttar, en málið hefur staðið yfir í þrjú ár. Blaðið þarf einnig að greiða Meghan óuppgefna upphæð fyrir að brjóta á höfundarrétti með birtingu bréfsins.

Meghan lögsótti Associated Newspapers Limited (ANL), útgáfufélag Mail on Sunday og MailOnline, og sagði málið snúast fyrst og fremst um prinsipp fremur en peninga. Talsmaður hertogynjunnar sagði auk þess í samtali við Guardian að allur ágóði af málinu muni renna til góðgerðarmála.

ANL var einnig dæmt til að greiða stóran hluta málskostnaðar Meghan og var skipað að birta forsíðufrétt í miðlunum sínum um niðurstöðu málsins. The Mail on Sunday og MailOnline völdu eðlilega að birta forsíðufréttina á annan á jólum, sem er með allra rólegustu fréttadögum ársins.