Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi og ráðgjafi á flugmarkaði, segir í samtali við Viðskiptablaðið ljóst að íslensku flugfélögin Play og Icelandair muni þurfa að fóta sig í harðri samkeppni á flugmarkaði eftir faraldurinn. Þá veki áhugi fjárfesta á félögunum athygli og nefnir bæði nýafstaðið hlutafjárútboð Play og fyrirhuguð kaup Bain Capital á 16,6% hlut í Icelandair fyrir um 8 milljarða króna.

„Ég held að það sé ekki mögulegt að reka Play á sama kostnaðargrunni og Ryanair og WizzAir, sem mun þýða að Play mun ekki takast að bjóða sama verð,“ segir Elnæs. Hann bendir á að lággjaldaflugfélögin WizzAir og Ryanair, sem og stóru bandarísku flugfélögin, United Airlines, American Airlines og Delta, standi mjög styrkum fótum fjárhagslega eftir faraldurinn.

„Þau munu öll vilja nýta fjárhagslegan styrk sinn til að bæta við markaðshlutdeild sína og flytja fleiri farþega.“ Því megi vænta þess að þau vilji bæta við flugferðum á nýjum mörkuðum, og ekki sé ólíklegt að Ísland verði einn þeirra.

Sjá einnig: Vindáttin snúist með Icelandair

Samkeppnin verði einnig hörð yfir Atlantshafið, þar sem framboðið muni aukast til muna á flugleiðum beint milli Evrópu og Norður-Ameríku, bæði frá hefðbundnum flugfélögum og flugfélögum sem gefi sig út fyrir lægra verð.

Þau muni þá keppa við íslensku flugfélögin um farþega yfir Atlantshafið. Elnæs telur líklegt að farmiðaverð verði sá þáttur sem ýta muni helst undir eftirspurn eftir flugi eftir faraldurinn. „Til að geta boðið lágt verð þurfa flugfélögin að halda kostnaði niðri og hafa samkeppnishæfan kostnaðargrunn. Það getur verið vandasamt fyrir flugfélög sem staðsett eru á Íslandi,“ segir Elnæs.

Líklega aldrei auðveldara að stofna flugfélag

Stofnun nýrra flugfélaga gæti greitt leiðina fyrir fleiri flugfélög að mati Elnæs. Hann nefnir sem dæmi til viðbótar við Play hið norska Norse Atlantic Airways, sem Bjørn Kjos, stofnandi og fyrrum forstjóri Norwegian, er einn stærsti hluthafinn í. „Það er mikið fjármagn á lausu, hægt að sækja flugvélar á lágu verði og töluvert framboð af flugmönnum og flugáhöfnum, sem hefur í för með sér að þröskuldurinn fyrir nýtt flugfélag inn á flugmarkaðinn hefur líklega aldrei verið lægri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .