*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 13. febrúar 2020 12:25

Megi ekki eiga meira en 25 hektara

Réttur erlendra aðila til að eiga fasteignir hérlendis verður þrengdur. Þak verður einnig sett á innlent eignarhald.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Stærð fasteigna hér á landi í eigu erlendra aðila mun ekki mega fara yfir 3,5 hektara nema sýnt sé fram á að stærri eign sé nauðsynleg sökum atvinnustarfsemi hér á landi. Þá má hámarksflatarmál vera 25 hektarar. Í báðum tilfellum mun mögulegur fasteignakaupandi þurfa að fá leyfi frá ráðherra til að kaupin gangi í gegn.

Þetta er meðal þess sem felst í frumvarpsdrögum forsætisráðherra sem ætlað er að bregðast við kaupum erlendra aðila á jörðum og eignum hér á landi. Þá er breytingunum einnig ætlað að tryggja nýtingu nýtingarhæfs landbúnaðarlands hér á landi. Frumvarpsdrögin fela í sér breytingar á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, lögum um skráningu og mat fasteigna, sem og breytingar á jarðalögum og þinglýsingalögum.

Frumvarpsdrögin fela ekki aðeins í sér inngrip í jarðakaup erlendra aðila heldur einnig jarðakaup Íslendinga. Er með því stefnt að því að sporna við því að of margar jarðir safnist á fárra hendur.

Þannig munu aðilar, einstaklingar og lögaðilar, sem fyrir eiga jörð eða jarðir í vissum tilfellum þurfa að fá leyfi frá ráðherra hafi þeir í hyggju að eignast jörð eða eign til viðbótar. Nauðsynlegt er að afla slíkt leyfis ef aðili á fyrir eign eða eignir sem samanlagt eru stærri en 50 hektarar, ef fyrirhuguð ný eign er stærri en 350 hektarar að flatarmáli eða ef viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir sem eru samanlagt yfir 10 þúsund hektarar. Umrædd skilyrði munu ekki eiga við ef eign er ráðstafað til einhvers nákomins, til ríkissjóðs eða ef fasteign er seld nauðungarsölu til veðhafa.

Lögaðilar sem eignast jörð eða jarðir hér á landi munu þurfa að upplýsa Skattinn um raunverulega eigendur félagsins og stjórnarmenn sem í því sitja. Við jarðalögin bætist ákvæði sem felur í sér að ef upplýsingaskyldu er ekki sinnt, þar með talið tilkynningarskyldu til sveitarfélags við aðilaskipti, verði heimilt að krefja viðkomandi um úrbætur. Verði ekki við því orðið getur ráðherra í vissum tilfellum krafist nauðungarsölu á eigninni.

Frumvarpsdrögin voru kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda í dag og er umsagnarfrestur við það tíu dagar. Hægt er að kynna sér efni frumvarpsdraganna með því að smella hér.