Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, sem skipuð er Páli Hreinssyni, Tryggva Gunnarssyni og Sigríði Benediktsdóttur, hefur lagt á það megináherslu að vinna úr frumheimildum í vinnu sinni. Þar er öðru fremur átt við nákvæm gögn sem til eru í bankakerfinu, um stöðu þeirra á hverjum tíma, útlán og fleira, og síðan einnig fundargerðir og önnur gögn sem skýra hvað bjó að baki einstökum ákvörðunum, ýmist hjá bönkunum, eftirlitsstofnunum eða hjá stjórnvöldum almennt.

Páll Hreinsson, formaður Rannsóknarnefndarinnar, segir að nefndin hafi þó yfirheyrt 141 einstakling við vinnu sína til þess að varpa skýrara ljósi á það hvað gerðist. „Í mörgum tilvikum hefur ekki verið þörf á því að yfirheyra menn, þar sem skýr og nákvæm gögn hafa legið fyrir, sem ekki er hægt að draga í efa. Okkar verkefni er öðru fremur að segja frá því sem raunverulega gerðist, og fá allar upplýsingar fram sem nauðsynlegar eru til þess að skýra það. Yfirheyrslur yfir mönnum þurfa ekki að bæta neinu við í mörgum tilvikum. Það skiptir öðru fremur máli, hvað menn gerðu raunverulega en ekki hvað menn segja um það eftir á,“ sagði Páll í samtali við Viðskiptablaðið.

Skýrsla nefndarinnar verður birt opinberlega 1. febrúar.  Páll segir nefndina fjalla með ítarlegum hætti um Icesave-reikninga Landsbankans og innlánssöfnun á þá í Hollandi og Bretlandi. Icesave-deilan sjálf sem hófst um það leyti sem bankarnir voru að falla er þó ekki til umfjöllunar í skýrslu nefndarinnar, þar sem nefndin skoðar einungis tímann fram að falli bankanna.

Páll segir nákvæmlega verið farið yfir öll gögn er Icesave-reikningunum tengjast og meðal annars rakin samskipti bankastjóra og forsvarsmanna íslenskra eftirlitsstofnana við erlendar stofnanir vegna þeirra.