Meginstef frumvarps um fjármál ríkissjóðs er, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, að koma því til leiðar að hægt sé að reka hallalaus fjárlög.

Spurður að því hvort það geti ekki verið æskilegt undir vissum kringumstæðum að hafa halla á fjárlögum segir Bjarni að svo sé vissulega. „Það er beinlínis ráð fyrir því gert í frumvarpinu að ríkið geti verið rekið með halla en að yfir lengra tímabil eigi ríkið að vera hallalaust. Þannig setur frumvarpið ákveðin mörk á það hversu lengi hægt er að vera með halla. Ef það dregst á langinn að koma ríkisrekstrinum aftur í jafnvægi þá þarf fjármálaráðherrann að óska eftir sérstakri undanþágu í þingsályktunartillögu til þess að taka lengri tíma í að koma ríkisfjármálunum í jafnvægi,“ segir Bjarni.