Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segist ekki hafa gert að því skóna að Íslendingar drægju úr hvalveiðum sínum, heldur aðeins að möguleikinn yrði skoðaður. Þetta kemur fram í samtali hans við fréttastofu RÚV .

Ráðherra sagði í viðtali við Skessuhorn fyrir rúmri viku að Íslendingar ættu að íhuga að draga úr hvalveiðum til að mæta gagnrýni á veiðarnar á alþjóðlegum vettvangi. Sagði hann meðal annars að Íslendingum hefði ekki verið boðið á suma fundi og ráðstefnur sem varði málefni hafsins vegna hvalveiða.

„Það hefur verið athyglisvert að sjá að menn kjósa að túlka þessi orð mín með alls konar hætti, að það sé um stefnubreytingu að ræða og ég veit ekki hvað og hvað, sem er náttúrlega bara vitleysa. Það er einfaldlega verið að velta upp praktískum hlutum,“ segir Gunnar Bragi í samtali við RÚV.

Hann segist ekkert kveða upp úr varðandi það hvort Íslendingar ættu að draga úr hvalveiðum eða ekki.

„Ég reyndar ítreka í viðtalinu að við megum aldrei gefa eftir rétt okkar til að veiða hvali. Ég vil líka taka það fram að hrefnan er undanskilin við þetta. Ég held að við eigum að veiða hrefnuna sem aldrei fyrr,“ segir Gunnar Bragi.