Stóru viðskiptabankarnir þrír eru tilbúnir til að mæta því útflæði fjármagns sem kann að eiga sér stað þegar stór skref verða stigin í átt að losun fjármagnshafta.

Gísli Sigurbjörn Óttarsson, framkvæmdastjóri áhættustýringarsviðs hjá Arion banka, segir að núverandi aðstæður kunni einhverjir að telja Seðlabankann hafa verið helst til varkáran í sínum haftalosunaraðgerðum en að hins vegar séu aðstæður hér á landi mjög sérstakar í augnablikinu.

Atvinnulífið sé heilbrigt og ávöxtunarmöguleikar fjármagns góðir, auk þess sem krónan virðist ætla að styrkjast. Þá séu ávöxtunartækifæri í Evrópu ekki beysin og við þær aðstæður séu menn tregir við að fara með fjármagn frá Íslandi. Vísar hann til þeirrar staðreyndar að lífeyrissjóðirnir hafi ekki nýtt sér allar þær undanþágur sem þeir hafa fengið frá fjármagnshöftum til að fjárfesta erlendis. Hins vegar þurfi ekki miklar breytingar á aðstæðum til að viðhorfið breytist.

„Núna eru menn nokkuð rólegir yfir afléttingu hafta vegna þess að fjármagnseigendum og þeim sem stýra fjármagni virðist ekki liggja ekki á að fara með það úr landi. Hins vegar þarf maður kannski að spyrja sig að því hvað gerist ef höftum verður létt og síðan breytast aðstæður. Þá gæti fjármagnið streymt nokkuð hratt úr landi ef ekki að er gáð. Maður má ekki láta það blekkja sig hversu ákjósanlegar aðstæður eru einmitt núna og Seðlabankinn þarf að taka tillit til þess,“ segir Gísli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .