Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vill skýrari ramma um landakaup og er að láta vinna tillögur þar að lútandi. Þetta kemur fram í viðtali við Katrínu í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar, sem kom út á dögunum.

„Þetta hefur verið töluvert umdeilt mál og að mínu viti skiptir máli að setja skýrari ramma um landakaup. Við höfum horft út fyrir landsteinana í þessum efnum en Danir, Norðmenn og Írar eru með ákveðnar takmarkanir á landakaupum, sem eru ólíkar á milli þessara landa. Sem dæmi geta verið takmarkanir á því hversu stóran hluta lands hver og einn getur átt, ákvæði um ábúð og nýtingu í landbúnaðarskyni og ýmislegt fleira. Lönd sem eru fullgildir aðilar að EES eða ESB hafa mörg hver tryggt stjórnvöldum ákveðnar heimildir til að hafa takmarkanir. Við þurfum að hugsa þetta þannig að þetta snúist ekki endilega um að skerða frelsi fólks til að selja eða kaupa land heldur að stjórnvöld hafi yfirsýn og geti beitt sér ef þau meta stöðuna þannig að það skipti máli út frá almannahagsmunum.“

Töluverð umræða hefur verið um kaup erlendra auðmanna á íslenskum jörðum. Spurð hvort hún telji að það séu annarlegir hvatar á bak við þau kaup svarar Katrín: „Ég held að það séu ekki annarleg sjónarmið. Við þurfum hins vegar að hafa varann á því land og vatnsréttindi eru ein mikilvægasta fjárfesting sem fólk getur lagt í núna. Ég held að það geti skipt okkur máli, sem fullvalda þjóð, að hafa yfirsýn og heimildir til að beita okkur ef almannahagsmunir eru í húfi. Við megum ekki vera alveg bláeyg gagnvart því að það getur haft áhrif á lífskjör almennings í þessu landi til framtíðar litið hvernig eignarhaldi á landi er háttað. Ég held að við séum lánsöm að hafa sett þjóðlendulögin á sínum tíma. Vegna þeirra eru 40% af landinu í almannaeigu og þar með auðlindirnar sem þar eru.“

Viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra er hægt að lesa í heild í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .