Í gær var á dagskrá dómstóla munnlegur málflutningur í meiðyrðamáli Jóns Snorra Snorrasonar gegn ritstjórum DV, þeim Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni, og fréttastjóra blaðsins, Inga Frey Vilhjálmssyni. Jón Snorri, sem er fyrrverandi stjórnarformaður og eigandi Sigurplasts og lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, stefndi DV í vor fyrir að hafa haldið því fram að hann sætti lögreglurannsókn í tengslum við gjaldþrot Sigurplasts. DV sagði frá því í mars að í skýrslu endurskoðunarfyrirtækis um Sigurplast hefðu komið fram upplýsingar sem bendi til þess að eignir og fjármunir hafi verið teknir út úr félaginu og færðir yfir í annað félag áður en Sigurplast var gefið upp til gjaldþrotaskipta haustið 2010. Skuldir Sigurplasts við Arion námu þá 1,1 milljarði króna. Í fréttum DV sagði að skiptastjóri Sigurplasts hefði sent kæru til Ríkislögreglustjóra með yfirliti yfir meint sakarefni og að lögreglan rannsaki hin meintu sakarefni í kærunni.