Samtímasögustofnun Þýskalands mun nú brátt gefa út bókina Mein Kampf eftir einræðisherrann og þjóðarmorðingjann Adolf Hitler. CNN segir frá þessu.

Bókin mun ekki koma út í ósnortinni og upprunalegri útgáfu sinni heldur hafa sagnfræðingarnir skrifað rúmlega 1400 blaðsíður af viðauka við orð Hitlers.

Ólöglegt er að gefa út bókina í sinni upprunalegu mynd í Þýskalandi, og allt til þessa var ólöglegt að gefa hana út í nokkurri mynd.

Nú eru hins vegar 70 ár síðan Hitler lést og þar með renna út höfundaréttindi bókarinnar, sem þýska ríkið hefur átt til þessa.

Upprunalega bókin var einhverjar 600 blaðsíður, en þessi sérstaka útgáfa mun telja rúmlega 2000 blaðsíður af aukaefni og textaskýringum. Þeim er ætlað að fletta hulunni af lygavef og geðveilu mannsins sem myrti sex milljónir gyðinga í Helförinni.