„Fari svo ólíklega að ákærði verði sakfelldur vegna þeirra brota sem ákært er fyrir er nauðsynlegt að árétta að fjölmörg sjónarmið styðja það að ákvörðuð refsing hans verði milduð verulega,“ segir í greinargerð sem lögmaður Baldurs Guðlaugssonar hefur skilað til Hæstaréttar. Baldur var í apríl dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur í tveggja ára fangelsi fyrir að nýta sér innherjaupplýsingar og fyrir brot í opinberu starfi, þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum að andvirði 193 milljónum króna. Það var í september 2008. Niðurstöðunni var áfrýjað til Hæstaréttar.

Viðskiptablaðið hefur greinargerðir í málinu undir höndum.

Nokkur atriði eru nefnd til að rökstyðja mildun refsingar verði Baldur fundinn sekur í Hæstarétti. Meðal annars að Baldur sé tæplega 65 ára gamall og með hreina sakarskrá, verið sé að fást við nýtt og afar ómótað réttarsvið að íslenskum rétti, að meint brot geti aldrei talist vera ásetningsbrot heldur í besta falli einfalt gáleysisbrot og að Baldur hafi aldrei reynt að leyna meintu broti. Þá hafi málið tekið langan tíma og Baldur orðið fyrir „dæmalausum áföllum og ágangi á mannorð sitt og allt persónulegt starf og líf, en þar hefur fjölmiðlaumfjöllun spilað stórt hlutverk“.

Fjölmiðlaumfjöllun þungbær

Ákæruvaldið segir að ekki séu fordæmi fyrir því að umfjöllun fjölmiðla hafi áhrif til refsimildunar, en slíkum sjónarmiðum sé gjarnan haldið á lofti af hálfu sakborninga. „Fjölmiðlaumfjöllun um sakamál er þungbær fyrir flesta, ef ekki alla, sakborninga og þá sem að þeim standa.“