Áætla má að samanlagður meintur vanframtalinn skattstofn Sigurðar Gísla Björnssonar og Sæmarks-Sjávarafurða ehf., félags hans, nemi tæpum tveimur milljörðum króna. Kröfu fyrrverandi eiginkonu hans um afléttingu á kyrrsettum eignum hennar, vegna áætlaðrar skattkröfu á hendur Sigurði vegna tekjuáranna 2011-12, var hafnað í Landsrétti undir lok síðasta mánaðar.

Leiðrétting 4. júlí 09.47: Í prentútgáfu Viðskiptablaðsins er að auki fjallað um þátt lögmannsins Andra Gunnarssonar í málinu. Þar er fullyrt að hann hafi réttarstöðu sakbornings í stórfelldu skatta- og bókhaldslagabroti. Hið réttar er að hann hefur réttarstöðu grunaðs manns. Leiðréttist þetta hér með. Hlutaðeigandi er beðinn afsökunar á mistökunum.

Nafn Sigurðar Gísla var meðal þeirra sem finna mátti í Panamaskjölunum svokölluðu. Ríkisskattstjóri (RSK) hafði keypt umrætt gögn á árinu 2015 og hafið skoðun á því sem þar kom fram. Þar sem ósamræmi hafi verið í svörum hans til RSK, að mati embættisins, hafi málið verið sent skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) til þóknanlegrar meðferðar í október 2016.

Eignir hans og innistæður á reikningum voru kyrrsettar í árslok 2017. Meðal hins kyrrsetta var rúmlega 9 milljón krónur á bankareikningi hans, fasteign í Garðabæ, önnur í Grímnes- og Grafningshreppi svo og allt hlutafé í Sæmarki. Í endurriti úr gerðabók sýslumanns kemur fram að þegar kyrrsetningargerðin fór fram hafi Sigurður Gísli verið á fundi hjá SRS.

Kyrrsetningin var kærð til dómstóla en í úrskurðum þeirra kemur fram að talið sé að tekjur Sigurðar Gísla, tekjuárin 2011, 2013 og 2016, hafi verið vantaldar um tæplega 237 milljónir króna. Verðmæti hinna kyrrsettu eigna, að undanskildum eignarhlutanum í Sæmarki, var um 172 milljónir. Handbært fé Sæmarks samkvæmt ársreikningi rekstrarársins 2016 nam 520 milljónum króna og taldi Sigurður því að verðmæti kyrrsetningarinnar væri of mikið miðað við mögulega kröfu skattayfirvalda.

Í úrskurðinum er rakið að skattayfirvöld telji að án aðgerðanna sé hætta á því að eignirnar muni ekki verða til staðar við lok rannsóknarinnar. Var meðal annars bent á að tíu dögum áður en kyrrsetningargerðin fór fram, þremur dögum eftir að Sigurði var tilkynnt að rannsókn væri hafin, hafi innistæða á reikningi hans numið tæpri 91 milljón króna. Þegar kyrrsetningin fór fram hafi rétt rúmlega einn tíundi þeirrar upphæðar verið eftir á reikningnum. Þess var getið að tæplega þriðjungur upphaflegrar fjárhæðar hafði verið haldlagður af héraðssaksóknara og lækkunina mætti að hluta rekja til þess.

Virði Sæmarks „lítið, ef þá nokkurt“

Um svipað leyti voru eignir og innistæður Sæmarks frystar og rekstrarfjármunir, í hinum ýmsu gjaldmiðlum, að andvirði rúmlega 153 milljón krónur, haldlagðir. Þá fór fram húsleit SRS á starfstöð félagsins um miðjan desember 2015.

Samkvæmt SRS er uppi rökstuddur grunur um að vanframtalinn skattstofn félagsins vegar tekjuáranna 2011-16 nemi tæplega 1,3 milljarði króna og að hluti þess sé tilkominn vegna tilhæfulausra sölureikninga og afsláttarreikninga. Skattayfirvöld áætla að með því hafi Sæmark komist hjá greiðslu tæplega 523 milljóna í opinber gjöld. Samkvæmt lögum um tekjuskatt getur fésekt numið allt að tífaldri skattfjárhæð vanframtalins skattstofns en hún verður aldrei lægri en tvöföld sú upphæð.

Hvað kyrrsetningu á eignum Sigurðar varðar þá felldi héraðsdómur hana úr gildi hvað varðar aðrar eignir en hlutinn í Sæmark. Í ársreikningi félagsins vegna rekstrarársins 2017, sem ekki virðist hafa verið samþykktur af RSK, segir að í janúar 2018 hafi tollstjóri kyrrsett handbært fé að fjárhæð 67 milljónir króna. Stöðvaðist starfsemi félagsins að mestu leyti eftir það og færðu starfsmenn sig til Bacco Seaproducts. Landsréttur breytti úrskurðinum og féllst á kyrrsetningu allra eignanna enda væri líklegt, við þessar aðstæður, „að virði hlutabréfa [Sæmarks] sé lítið, ef þá nokkurt.“

Í byrjun desember 2018 barst tollstjóra tilkynning frá SRS um að möguleg skattakrafa, á hendur Sigurði Gísla persónulega, hefði hækkað verulega frá fyrri kyrrsetningu þar sem ný gögn í málinu hefðu komið í dagsljósið. Ekki væri lengur aðeins um að ræða tekjuárin 2011, 2013 og 2016 heldur allt tímabilið frá 2011-16. Áætlun væntanlegrar skattkröfu, að mati SRS, nam 355 milljónum og mögulegrar fésektar 818 milljónir króna. Samanlagt næmi möguleg krafa skattsins tæpum 1,2 milljörðum. Frekari kyrrsetning reyndist árangurslaus.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um óbirta skýrslu Hagfræðistofnunar um áhrif sykurneyslu.
  • Viðtal við Birgi Jónsson, nýjan forstjóra Íslandspósts.
  • Umfjöllun um kaupverð Pearl Abyss á CCP.
  • Markaður með sumarhús hér á landi hefur kólnað og leitar fólk nú frekar í hús á erlendis.
  • Ítarlegt viðal við Heiðar Guðjónsson, forstjóra Sýnar.
  • Sérblað um atvinnulíf á Norðurlandi fylgir Viðskiptablaðinu.
  • Rætt við nýjan fjárfestingastjóra hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um ráðningu Christine Lagarde í stöðu seðlabankastjóra Evrópu.