Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði húsleit í byggingarverslununum Byko og Húsasmiðjunni í morgun vegna gruns um meint verðsamráð við innflutning og sölu á timbri og annarri grófvöru. Frá þessu er greint á vefsíðu DV .

Samkvæmt heimildum blaðsins var Samkeppniseftirlitið einnig með lögreglunni í húsleitunum í morgun. Segir í fréttinni að samkvæmt því sem DV kemst næst lagði lögreglan hald á tölvugögn og annað slíkt í húsleitunum og stendur til að yfirheyra starfsfólk verslananna út af ransókninni. Rannsóknin beinist eingöngu að meintu samráði við innflutning og sölu á timbri eftir því sem blaðið kemst næst.