Hugsanlegt ólöglegt samráð Vífilfells og Ölgerðarinnar, sem Samkpenniseftirlitið hefur til rannsóknar, felur meðal annars í sér uppröðun og framsetningu drykkjarvara í kælum og hillum verslana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vífilfelli, þar sem greint er frá bréfi frá Samkeppniseftirlitnu. Húsleitir voru gerðar í húsakynnum Vífilfells og Ölgerðarinnar í dag.

Í tilkynningunni tekur Vífilfell fram að verslanir ákvarða hversu mikið hillurými framleiðendur fá fyrir hverja vörutegund. Stjórnendur Vífilfells munu ekki tjá sig frekar um málið meðan það er í rannsókn.

Fréttatilkynning frá Vífilfelli:

„Samkeppniseftirlitið gerði húsleit hjá Vífilfelli í dag, 19. apríl 2011, eins og fram hefur komið í fréttum. Samkvæmt bréfi frá Samkeppniseftirlitinu, sem Vífilfelli barst síðdegis, segir að eftirlitinu hafi borist upplýsingar um ólöglegt samráð sem m.a. fellst í uppröðun og framsetningu drykkjarvara í kælum og hillum verslana.

Vegna þessa vill Vífilfell taka fram að verslanir ráðstafa hillu- og kælirými sínu í réttu hlutfalli við sölu hverrar drykkjartegundar. Reglan er sú að sölutölur verslana, en ekki  framleiðendur, ákvarða hversu mikið hillurými framleiðendur fá fyrir hverja vörutegund.

Stjórnendur Vífilfells munu ekki tjá sig frekar um málið meðan það er í rannsókn en vinna með Samkeppniseftirlitinu og veita allar upplýsingar sem eftirlitið kann að leita eftir í málinu.“