Rannsókn stendur nú yfir á því hvort einstaklingar, með aðstoð gömlu bankanna, hafi stundað stórfelld skattsvik með því að gefa ekki upp hagnað af fjármagnstekjum sem urðu til í viðskiptum með hlutabréf, skuldabréf og gjaldeyri.

Sérstaklega er horft til þess hvort rétt hafi verið staðið að skattgreiðslum vegna framvirkra samninga og annarra afleiðusamninga.

Í liðinni viku var greint frá því að einstaklingar höfðu ekki gert grein fyrir sölu á hlutabréfum að því sem nemur 127 milljörðum króna á framtölum sínum fyrir árin 2004 til 2008. Af því tilefni héldu forsætis- og fjármálaráðherra blaðamannafund þar sem fjallað var um málið og vísað til þess að hér á landi hefði hluti manna stundað stórfelld skattsvik í viðskiptum með hlutabréf.

Skattayfirvöld hafa þó einnig til rannsóknar viðskipti með skuldabréf og gjaldeyri. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins bendir þó allt til þess að sú upphæð sem ríkissjóður kann að hafa verið hlunnfærður um sé mun minni en áður hafði verið talið.

Einn heimildarmaður blaðsins orðar það svo að þarna sé um að ræða storm í vatnsglasi, ekki væri um „svart skattkerfi“ að ræða og vísaði þar til orða forsætisráðherra frá fyrrnefndum blaðamannafundi.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .