Tölvuhakkarar fóru inn á Twitter síðu AP fréttastofunnar og sögðu frá því að tvær sprengjur hefðu sprungið í Hvíta húsinu í Washington, og að Barack Obama forseti hefði særst.

Þetta olli verulegri lækkun á hlutabréfum á Wall Street. Helstu hlutabréfavísitölurnar þrjár lækkuðu um næstum eitt prósent við hina röngu frétt.

Fréttin var stutt. Þar sagði: Stórfrétt: Tvær sprengjur sprungu í Hvíta húsinu og Barack Obama er særður.

Örstuttu seinna sendi AP fréttastofan frá sér yfirlýsingu um að fréttin væri röng. Þetta staðfesti svo Jay Carney blaðafulltrúi forsetans stuttu seinna.