Sigurður Ingi Þórðarson, einnig þekktur sem Siggi Hakkari, hefur verið sakaður um að hafa svikið út skyndibita að andvirði 350 þúsund krónur á árunum 2012-2013. Þessu greinir Vísir frá.

Sigurður á að hafa svikið út skyndibitann með því að stunda reikningsviðskipti í nafni tveggja fyrirtækja sem hann átti ekki en hann er sakaður um að hafa sölsað undir sig annað fyrirtækið með því að svíkja eigandann.

Samkvæmt ákæru á höndum Sigurðar var hann tíður gestur á American Style, KFC og Subway. Hann er sakaður um að hafa svikið tæpar 150 þúsund krónur af fyrirtækinu FoodCo sem er rekstraraðili American Style, Eldsmiðjunnar og Greifans á Akureyri. Hann á einnig að hafa svikið út rúmar 110 þúsund krónur í pizzum frá Domino's, tæpar 29 þúsund krónur í kjúklingum frá KFC og samlokur frá Subway um 20 þúsund krónur. Einnig á hann að hafa svikið út 43.300 krónur í veitingum frá TGI Fridays í Smáralind.

Auk skyndibita svikanna er Sigurður sagður hafa svikið út mat á steikhúsinu Argentínu fyrir 33 þúsund krónur. Meint svik Sigurðar hjá fyrirtækjum í veitingarekstri nema því nú 382.128 krónum í heildina.

Samtals eru meint þýfi og svik Sigurðar metin á rúmar 30 milljónir. Auk svika í veitingarekstri er hann sagður hafa sölsað undir sig útgáfufyrirtæki með því að blekkja eiganda fyrirtækisins árið 2012. Strax í kjölfarið fjölgaði meintum svikum mikið.

Í ákærunni er Sigurður sakaður um að hafa þóst ætla kaupa útgáfufyrirtækið. Hann falsaði reikningsyfirlit og millifærslur til að gabba eiganda fyrirtækisins. Sigurður var með því prófkúruhafi fyrirtækisins og stofnaði þannig til reikningsviðskipta við fjölda annarra fyrirtækja án þess að greiða fyrir þjónust þeirra. Sigurður hafði áður notað nafn annars fyrirtækis til þess að stofna til reikningsviðskipta árið 2012.