Hluthafi í BVS ehf. hefur kært meint umboðssvik innan félagsins til embættis héraðssaksóknara. Í kærunni, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur fram að félagið hafi fengið 300 milljóna króna lán frá Íslandsbanka og lánað fjármunina strax áfram til Borgunar. Í kjölfarið hafi eignin, það er lánið til Borgunar, verið afskrifað en skuldin við bankann stóð eftir með þeim afleiðingum að eign hluthafa rýrnaði.

Sem kunnugt er var Borgun selt í fyrra til SaltPay en kaupverð átti upphaflega að vera á fimmta milljarð króna. Þegar upp var staðið var endanlegt verð á þriðja milljarð. Við söluna fylgdi eignarhlutur í BVS ehf. ekki með en félagið heldur utan um forgangshlutabréf í Visa Inc. Borgun eignaðist bréfin þegar félagið seldi hlut sinn í Visa Europe árið 2016. Bókfært virði bréfanna í ársreikningi 2019 var rúmlega þrír milljarðar króna.

Á hlutahafafundi Borgunar í fyrra var samþykkt að færa bréfin yfir í BVS og afhenda fráfarandi hluthöfum Borgunar. Langstærsti hluthafi BVS er Íslandsbanki (ÍSB) með tæplega tvo þriðju útgefinna hluta en alls telur mengi hluthafa á fjórða tug. Erindi þess efnis var sent Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til samþykktar. Samkvæmt samþykktum BVS einskorðast starfsemi þess við eignarhald, umsýslu og sölu á forgangshlutabréfum í C-flokki Visa Inc.

Téð C-bréf voru gefin út í þeim tilgangi að verja Visa Inc. fyrir mögulegri skaðabótaskyldu vegna meintrar ólögmætrar háttsemi Visa Europe þegar Visa Inc. keypti félagið 2016. Á tilteknum dagsetningum komandi ára getur félagið metið skiptigengi við breytingu bréfanna í almennan A-flokk. Ein slík dagsetning var í fyrra og seldi BVS þá bréf fyrir tæplega 18,6 milljónir dollara, andvirði rúmlega 2,4 milljarða króna, á gengi dagsins. Handbært fé í árslok 2020, samkvæmt ársreikningi sem blaðið hefur undir höndum, var tæplega 15,9 milljónir dollara og var samþykkt að greiða hluthöfum út 15,5 milljónir dollara í samræmi við tilgang félagsins.

Þegar sú útgreiðsla átti sér stað klóraði hluti hluthafa sér í kollinum þar sem handbært fé, þegar tekið hafði verið tillit til söluþóknunar, var nokkuð lægra en söluandvirði bréfanna. Strangt til tekið vantaði á þriðju milljón dollara upp á. Af sjóðstreymisyfirliti félagsins má ráða að í fyrra hafi BVS tekið rúmlega 2,3 milljóna dollara lán, andvirði tæplega 300 milljóna króna á gengi dagsins, og það greitt til baka strax sama ár, í raun innan mánaðar. Lánveitandi var ÍSB.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .