Flóttamaðurinn og fjármálamaðurinn Arthur G. Nadel gaf sig fram við alríkislögregluna FBI í Tempa í Bandaríkjunum í gær. Hann er sakaður um að hafa svindlað á 600 fjárfestum vítt og breitt um Bandaríkin á síðastliðnum fimm til sex árum í gegnum sex vogunarsjóði.   Arthur G. Nadel er 76 ára að aldri. Hann er talinn hafa dregið sér tugi milljóna dollara úr sex vogunarsjóðum sem hann gortaði sig af að væru 342 milljóna dollara virði. Þegar Nadel flýði frá Sarosota þann 14. janúar var minna en eina milljón dollara eftir í sjóðunum að því er segir í Herald Tribune.   “Ég er ánægður með að hann hafi gefið sig sjálfur fram. Ég vona að hann hafi meðferðis 350 milljónir dollara,” sagði Dr. Brad Lerner sem fjárfesti fyrir 500.000 dollara í vogunarsjóði Nadels.   Búist er við að Nadel verði í gæsluvarðhaldi að minnsta kosti fram á föstudag. Þá mun dómstóll taka ákvörðunum um hvort hann verður fluttur til New York þar sem hann mun sæta ákæru. Talið er að Nadel hafi hagnast um að minnsta kosti 95 milljónir dollara með vafasömum hætti á starfsemi vogunarsjóðanna. Hann gæti horft fram á 20 ára fangelsisdóm og 5 milljóna dollara sekt.