Newsweek birti í vor grein sem átti að afhjúpa hver Satoshi Nakamoto, maðurinn á bak við Bitcoin, væri. Samkvæmt greininni var það hinn 65 ára gamli Dorian Nakamoto sem stóð að baki hinum rafræna gjaldmiðli, en Dorian sjálfur hefur alltaf þverneitað fyrir að vera höfundur gjaldmiðilsins. Viðskiptablaðið fjallaði um málið á sínum tíma.

Í grein Newsweek, sem byggði á tveggja mánaða rannsókn, segist greinarhöfundurinn, Leah Goodman, hafa fundið hinn raunverulega Nakamoto með því að leita að nafninu í gegnum opinbera gagnagrunna.

Dorian heldur því fram að umfjöllun Newsweek hafi valdið honum og fjölskyldu hans tjóni og segir fjölmiðilinn þurfa að vera ábyrgan gjörða sinna. Hefur hann því hafið fjáröflun á vefsíðunni newsweeklied.com þar sem hann biður um fjárframlög til málsóknarinnar.