Stjórn Existu ákvað á stjórnarfundi í byrjun mars að hækka hlutafé í félaginu um 147,3 milljónir króna að nafnverði. Áskriftir fengust að öllum hinum nýju hlutum og var hlutaféð að fullu greitt með skuldajöfnun.Þetta kemur fram í tilkynningu um hlutafjárhækkunina til Fyrirtækjaskráar.

Exista gekk í gegnum nauðasamninga síðastliðið haust. Í þeim fólst meðal annars að kröfuhafar félagsins breyttu um 10% af um 400 milljarða króna skuldum Existu í hlutafé og tóku félagið yfir í kjölfarið. Því höfðu kröfuhafarnir þegar breytt gríðarlega háum kröfum í hlutafé. Stærstu innlendu kröfuhafar Existu eru Arion banki, skilanefndir og lífeyrissjóðir. Auk þeirra eiga 27 alþjóðlegir bankar hlut í félaginu.