Við upphafi kórónukreppunnar svokölluðu nú var mun meira atvinnuleysi í landinu heldur en við upphaf fjármálakreppunnar árið 2008, svo aukningin þá var næstum fimmföld, en einungis rúmlega tvöföld nú þó atvinnuleysið sé nú þegar orðið meira en þegar það varð mest þá.

Þetta kemur fram í samanburði Hagsjár Landsbankans á þróun atvinnuleysisins fyrstu 8 mánuðina eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst og sama tímabils frá upphafi fjármálakreppunnar í október 2008.

Þannig var atvinnuleysið 1,9% í október 2008, en í febrúar 2020 var það 5%, eftir að hafa aukist nokkuð frá árinu 2019. Nú átta mánuðum síðar er atvinnuleysið enn að aukast, og hefur það verið að gera það frá því í júní eftir að hafa verið stöðugt í þrjá mánuði.

Atvinnuleysið náði hámarki 1,5 ári eftir bankahrunið

Átta mánuðum eftir að fjármálakreppan skall á hafi dregið nokkuð úr atvinnuleysinu en það fór hæst í 9,3% í apríl og maí árið 2010, eða einu og hálfu ári eftir að kreppan skall á. Þess má geta að stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem síðar varð formaður Samfylkingarinnar tók við í febrúar 2009.

Atvinnuleysið í október er nú þegar orðið meira en það varð hæst í fjármálakreppunni, en það náði 9,9% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar sem er aukning frá 9,0% í september. Eru nú um 25 þúsund manns á atvinnuleysisskrá, þar af 20.252 atvinnulausir að fullu.

Til viðbótar voru svo 4.759 í minnkuðu starfshlutfalli, en atvinnuleysi tengt því hækkaði úr 0,8% í 1,2% milli mánaða svo samanlagt atvinnuleysi fór í 11,9% í október en var 11,1% í september. Því reiknar Vinnumálastofnun með því að almenna atvinnuleysið verði 11,3% í desember, sem þýðir að meðaltal atvinnuleysis verði 7,9% á árinu, en í fyrra var meðaltalsatvinnuleysið 3,6%.