„Við erum að vinna í þessu. Ég vona að einhverjar konur hafi sótt um. En ég veit ekkert um það,“ segir Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ). Frestur til að sækja um stöðu framkvæmdastjóra rann út á miðnætti í nótt. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu margir sóttu um starfið. Við lok vinnudags í gær voru 30 umsóknir í húsi. Hagvangur sá um umsóknarferlið.

Adolf segir í samtali við vb.is framkvæmdaráð LÍÚ setjast yfir umsóknirnar fljótlega og muni það væntanlega ráðast fyrir helgi hver verði ráðinn. Friðrik J. Arngrímsson hefur verið framkvæmdastjóri LÍÚ síðastliðin þrettán og hálf ár. Greint var frá því að hann ætli að hætta í aprílmánuði.

Adolf segir í samtali við vb.is að nafnalisti yfir umsækjendur verði ekki birtur og sé það í samræmi við loforð stjórnar LÍÚ við umsækjendur.