Rúm 58% landsmanna myndu örugglega eða sennilega greiða á móti aðild landsins að Evrópusambandinu (ESB). Tæp 42% landsmanna myndu vera fylgjandi aðild, samkvæmt niðurstöðu könnunar Capacent Gallup fyrir Já Ísland. Já Ísland er sameiginlegt verkefni og vettvangur Evrópusamtaka, Evrópuvaktar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðra Evrópumanna, Sterkara Íslands og Ungra Evrópusinna.

Könnunin var gerð dagana 7. – 19. nóvember 2013. Spurt var Ef aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) yrði borin undir þjóðaratkvæði í dag, hvernig telur þú líklegast að þú myndir greiða atkvæði?

Andstæðingum aðildar fækkar

Á vef Já Íslands segir að stuðningur við aðild að Evrópusambandinu hafi vaxið undanfarin misseri. Það sé þvert á boðskap ríkisstjórnarinnar sem telji aðild að ESB ekki til hagsbóta fyrir land og lýð.

Þá segir á vef Já Íslands að hitt sé þó ekki síður merkilegt að ef niðurstöðurnar eru bornar saman við nákvæmlega sams konar könnun sem gerð var í maí á þessu ári, sama mánuði og ný ríkisstjórn tók við völdum, komi í ljós að andstæðingum aðildar hefur fækkað um 10 prósentustig úr 68,4% og fylgjendum að sama skapi um 10 prósentustig úr 31,6% í 41,7%.

„Þetta sýnir að ríkisstjórninni hefur ekki tekst að sannfæra landsmenn um að hún sé á réttri leið í Evrópumálum. Þvert á móti fjölgar þeim ört sem eru andvígir stefnu hennar. Þá liggur fyrir að talsverður meirihluti landsmanna vill að aðildarferlið verði klárað og samningur lagður í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir á vef Já Íslands.