Rafbílar voru meira en helmingur nýskráðra bifreiða í Noregi í nýliðnum mánuði. Tæplega þriðjungur þeirra voru Tesla Model 3.

Samkvæmt upplýsingum frá samgöngustofu þeirra Norðmanna voru 18.375 bifreiðar nýskráðar í síðasta mánuði. Það er aukning um 27,6 prósent samanborið við mars í fyrra. Af bifreiðunum 18 þúsund voru tæplega sex af hverjum tíu knúnir áfram af rafmagni eða vetni. Noregur er það ríki heimsins þar sem hlutfall rafbíla er hæst miðað við höfðatölu.

5.315 nýjar Tesla bifreiðar, Model 3, voru nýskráðar í landinu en stutt er síðan týpan rataði inn á evrópskan markað. Það er met í nýskráningu rafbíla þar ytra en fyrra metið átti Nissan Leaf en tæplega 2.200 slíkir bílar voru keyptir nýir í Noregi í mars 2018.