Hlutdeild félaga í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar í söluhagnaði af tékkneska fjarskiptafélaginu Radiokomunikace (CRa) nemur um 56 milljörðum króna og er því meiri en öll útgjöld íslenska ríkisins til sjúkrahúsaþjónustu, sem voru í fyrra 52,7 milljarðar samkvæmt ríkisreikningi.

Alls var söluhagnaðurinn um 80 milljarðar, sem er meira en allir tekjuskattar einstaklinga á Íslandi í fyrra (73,6 milljarðar), en hlutdeild félaga í eigu Björgólfs er um 70%.

Það var bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers sem greindi á föstudaginn var frá því að hann hefði leitt kaup á tékkneska félaginu. Að teknu tilliti til arðgreiðslna til seljenda nam kaupverðið um það bil 120 milljörðum króna en félagið var keypt fyrir rúmum tveimur árum á um það bil 40 milljarða.

Af öðrum stærðum í reikningum íslenska ríkisins má nefna að öll útgjöld til menntamála, þar með taldir háskólar, framhaldsskólar og menningarmál, námu 37,7 milljörðum í fyrra. Tekjuskattur allra lögaðila nam 23,4 milljörðum eða um það bil hálfum söluhagnaði félaga í eigu Björgólfs Thors af CRa.

Söluhagnaður FL Group af 16,9% hlut í Easy Jet í apríl síðast liðnum þótti feikimikill en nam þó "aðeins" 13 milljörðum. Um svipað leyti hagnaðist Landsbankinn um 10 milljarða á því að selja 19,8% hlut í Carnegie.

Loks má geta þess að á sama tíma -- í apríl síðast liðnum -- skrifaði Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði meðal annars um viðskipti með Arcadia árið 2002: "Mjög varlega áætlað missti Baugur Group af hagnaði upp á ríflega 80 milljarða króna, en hagnaður Philip Green varð þeim mun meiri vegna aðgerða Ríkislögreglustjóra."