Efnahagsreikningur bandaríska bankans Citigroup nemur nú alls 2.100 milljörðum dollara, en til samanburðar nemur samanlagður efnahagsreikningur íslensku viðskiptabankanna um 180 milljörðum dollara. Frá þessu er greint í Vegvísi Landsbankans.

Efnahagur Citigroup stækkaði um tæplega 690 milljarða dollara undir stjórn forstjórans fyrrverandi, Charles Prince. Nýji forstjórinn Vikram Pandit vinnur nú markvisst að minnkun efnahags bankans og sölu eigna.

Gengi Citigroup hefur lækkað um 39% frá áramótum. Bankinn skilaði uppgjöri yfir væntingum í dag, en tap bankans nam um 2,5 milljörðum dollar. Hafði gengi bréfa hans hækkað um 9,6% á tímabili í dag. Á sama tíma hafði hins vegar fjármálafyrirtækjavísitala S&P lækkað um 1,9%.