Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og forstjórar systurstofnana Seðlabankans á Norðurlöndunum, sem fara fyrir fjármálaeftirliti og skilavaldi, sendu í maí bréf á Evrópska bankaeftirlitið EBA þar sem varað var við flækjustigi regluverks sem gildir um fjármálastarfsemi á evrópska efnahagssvæðinu. Brýnt væri að leita leiða til að einfalda regluverkið.
Ásgeir ásamt forstjórum fjármálaeftirlita hinna Norðurlandaríkjanna, í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, sendu áþekkt bréf síðasta sumar til evrópskra fjármálaeftirlitsstofnana þar sem listaðar voru áhyggjur af íþyngjandi flækjustigi regluverks um fjármálamarkaði og hvatt til einföldunar á því við upphaf nýs kjörtímabils á Evrópuþinginu.
Regluverk um fjármálastarfsemi innan Evrópu telur um 15.000 blaðsíður og er sérlega íþyngjandi í fámennum ríkjum á borð við Íslandi.
Innan Evrópusambandsins hefur verið mörkuð stefna um að ráðast í einföldun regluverks um fjármálastarfsemi án þess að draga úr skilvirkni eftirlitsins. Þá hafa fjármálaeftirlitsstofnanir fjölmargra ríkja innan Evrópu tilkynnt að þau hyggist skoða hvað sé í þeirra valdi til að grípa til aðgerða í átt til einföldunar.
Í nýlegri skýrslu Evrópsku bankasamtakanna EBF sem ber yfirskriftina „Less is more“ um regluverk á fjármálamörkuðum er bent á að regluverk um fjármálamarkaði í Evrópu telji í það heila um 15.000 blaðsíður. Þrátt fyrir yfirlýsingar Evrópusambandsins um að vinda ofan af þáttum í regluverkinu virðast einnig sterkir hvatar í átt að sífellt ítarlegra regluverki, sér í lagi vegna þess hve eftirlitsstofnunum sé falið stórt hlutverk í að setja sífellt ítarlegri reglur um fjármálamarkaði umfram upphaflega lagasetningu Evrópuþingsins. Sem dæmi feli uppfært evrópskt regluverk um eigið fé banka kennt við CRD VI og CRR III í sér að Evrópska bankaeftirlitinu EBA er falið að setja 139 nýjar reglur, viðmiðunarreglur og tæknistaðla ásamt því að bæst hafi við 650 spurningar og svör um túlkun á þessum reglugerðarpökkum af hálfu EBA. Í það heila sé 26% af framseldum reglugerðum á EES svæðinu sem fjallar um fjármálageirann og á árunum 2021 til 2023 hafi að meðaltali 83 slíkar reglugerðir bæst við á ári.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.