Að mati Greiningar Glitnis má búast við áframhaldandi hækkunum á norrænum hlutabréfamörkuðum, en auknar verðsveiflur verða einkennandi fyrir þróunina. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Glitnis [ GLB ] um stöðu og horfur á norrænum hlutabréfamörkuðum.

Samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis er hagvöxtur í heiminum er enn mikill í sögulegu samhengi en búast má við að vöxtur verði hægari í iðnríkjum en verið hefur undanfarin misseri. Vöxtur á nýmörkuðum verður áfram sterkur. Kína dregur þar vagninn en önnur nýmarkaðsríki á borð við Indland, Brasilíu og Rússland fylgja fast á eftir.


Þrátt fyrir miklar væringar á heimsmörkuðum undanfarið er staða norræna markaðarins traust, m.a. vegna væntinga um kröftugan afkomuvöxt. Búast má við að núverandi vandræði á lánamarkaði ógni stemningunni á norrænum mörkuðum á komandi mánuðum líkt og annars staðar en áhrifin á einstakar atvinnugreinar verða mismunandi.

Í því sambandi mælir Greining Glitnis með að fjárfestar vandi val sitt á fjárfestingakostum og mælt er sérstaklega með olíugeiranum ásamt upplýsingatækni- og fjarskiptageiranum.

Norræn hlutabréfaskýrsla