Niðurstöður rannsókna á svæðinu í kringum Vagarhrygg á Suður-Grænlandi sýna fram á að þar er að finna mun meira gull en áður var talið og að vænlegt gullvinnslusvæði sé umtalsvert stærra en fyrri rannsóknir bentu til. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Á árinu 2021 lagði AEX Gold Inc. í rannsóknarvinnu á Vagar svæðinu, sem meðal annars fól í sér notkun, rafsegulmælinga, steinefnakerfislíkana, myndgreiningar úr lofti og af jörðu og greiningu könnunarsýna.

Niðurstöður rannsóknanna benda til þess að á Vagarhrygg sé að finna allt að fjórar vinnsluhæfar gullæðar, en gullinnihald í könnunarsýnum var allt að 86,7 grömm í hverju tonni af grjóti. Þar fyrir utan er innihald gulls í berggrýti utan æðanna verulegt, eða allt að 14,4 g/t., en í hefðbundinni neðanjarðarnámu er hlutfall gulls á bilinu 4-6 g/t.

Sjá einnig: Gullleit á Grænlandi „langt umfram væntingar“

Mögulegt vinnslusvæði var tveir ferkílómetrar, en er nú metið á fjóra ferkílómetra. AEX metur gullmagnið á svæðinu svo mikið að um sé að ræða einn stærsta gullfund síðustu 20-30 ára í heiminum öllum og að Vagarhryggur geti orðið eitt mikilvægasta gullvinnslusvæði heims, eða „elephant deposit" eins og slík svæði eru stundum kölluð. AEX ætlar að framkvæma frekari tilraunaboranir á svæðinu í sumar til að sannreyna þá kenningu.

AEX var stofnað árið 2017 með megináherslu á gullleit og -rannsóknir á Grænlandi. Fyrirtækið er með leyfi til að leita að og vinna gull og aðra verðmæta málma í Suður-Grænlandi. Stærsta eign AEX er Nalunaq gullnáman, sem verið er að koma aftur í vinnslu. Hlutabréf AEX eru skráð í kauphallirnar í Toronto og London, en meðal stærstu hluthafa í félaginu eru íslenskir fjárfestar, þjóðarsjóðir Grænlands og Danmerkur og stærsti lífeyrissjóður Grænlands.

Eldur Ólafsson, forstjóri AEX Gold segir niðurstöðurnar vera mjög hvetjandi. Hann segir félagið ávallt hafa staðið í þeirri trú að talsvert meira magn af gulli væri til á Vagar svæðinu og að vinnslusvæðið gæti orðið mun stærra. Niðurstöður rannsóknanna sýni að trú félagsins hafi verið á rökum reist.

Eldur Ólafsson, forstjóri AEX Gold:

„Til að setja niðurstöðurnar í samhengi þá er gullið sem við vitum af í Nalunaq í einni gullæð, en í Vagar eru æðarnar margar auk þess sem verulegt magn gulls er í berginu umhverfis æðarnar. Hér er því mögulega um að ræða uppgötvun sem getur haft áhrif á heiminn allan, sérstaklega þegar haft er í huga hve lítið hefur í raun fundist af nýju vinnanlegu gulli á síðustu árum.  Við stefnum að því prófa enn frekar stærð og möguleika svæðisins á þessu ári.

Til viðbótar við uppgötvanirnar á Vagarhrygginum sjálfum höfum við uppgötvað fimm svæði innan Vagar leyfisins sem gefa tilefni til að ætla að þar sé að finna verðmæta málma og munum við beina sjónum okkar að þessum svæðum í framtíðinni.

Niðurstöðurnar og uppgötvanir þeim tengdar sýna líka fram á möguleika og alþjóðlegt mikilvægi Grænlands í nýjum heimi. Það að í þessu örugga vestræna landi sé að finna slíkt magn mikilvægra málma mun geta skipt sköpum þegar fram í sækir."