*

sunnudagur, 26. september 2021
Innlent 18. júlí 2021 13:55

Meira og minna uppselt

Framkvæmdastjóri Íslandshótela segir bókanir vera mjög miklar á hótelum keðjunnar víðast hvar um land.

Andrea Sigurðardóttir
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.
Haraldur Guðjónsson

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, sagði sumarið líta vel út hjá keðjunni í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, áður en Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir boðaði tillögur um hertar aðgerðir á landamærum. Víðast hvar sé meira og minna orðið uppselt á hótelunum.

„Nýting er orðin mjög góð á hótelunum sem við erum með opin hérna í Reykjavík og mjög miklar bókanir á hótelum okkar á Suður-, Austur- og Norðurlandi sem og á Vestfjörðum. Bókanir eru jafnframt góðar á Vesturlandi, en þó ekki alveg jafn góðar og í öðrum landshlutum. Það virðist vera að margir Íslendingar hafi ferðast um Vesturlandið í fyrra og jafnvel farið hringinn og að þeir sæki meira á jaðarsvæðin núna, eins og Vestfirði og Austfirði," sagði Davíð fyrr í vikunni.

Stærsta breytingin í sumar miðað við fyrrasumar sé þó erlendu ferðamennirnir.

„Núna er heilmikið af erlendum ferðamönnum líka, það er að segja miðað við fyrrasumar, sem er auðvitað ekki gott í samanburði. Norður-Ameríkanar eru að koma, Evrópa og Skandinavía eru að taka við sér núna og Bretarnir eru að slaka á takmörkunum hjá sér þannig að við munum vonandi sjá þá í haust og vetur. Við erum þó enn ekki að sjá ferðamenn frá Asíu og sjáum ekki fyrir okkur að það verði mikið um þá fyrr en kannski bara næsta sumar."

Hótelkeðjurnar hafa verið að opna aftur hægt og rólega en Davíð segir það þó hafa verið áskorun að ráða starfsfólk, líkt og annars staðar í geiranum.

„Við rekum 17 hótel og af þeim eru í raun bara fjögur lokuð núna. Þrjú hótel eru rekin í samstarfi við sjúkratryggingarnar, þá ýmist sem sóttvarnahótel eða sóttvarnahús, og restin er í hefðbundnum rekstri. Eitt þeirra fjögurra sem eru lokuð verður opnað í september en hin sennilega ekki fyrr en næsta ári. Það hefur þó verið áskorun að fá starfsfólk, mörg eru farin eða komin í önnur störf og svo eru væntanlega einhver sem ætla að bíða þetta aðeins áfram af sér og ætla sér ekki að fara að vinna aftur fyrr en með haustinu. En við erum á fullu að ráða og sækja fólk hingað og þangað um heiminn." 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Íslandshótel