Finnur Sveinbjörnsson, fráfarandi bankastjóri Arion banka, segir að hagnaðartölur nýju bankarnir þriggja: Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka, segi ekki til um hvers konar svigrúm sé til afskrifta af skuldum heimilanna. Bankarnir þrír skiluðu samtals 51 milljarðs króna hagnaði á árinu 2009. Ný könnun Capacent sýnir að á sama tíma safni fjórðungur heimila annað hvort skuldum eða gangi á sparifé sitt. Þetta kemur fram í viðtali við Finn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Finnur segir að bankarnir séu að nýta það svigrúm sem þeir hafi til að mæta stöðu skuldara „ Afkoman af kjarnastarfseminni, hefðbundinni bankastarfsemi, er ekkert sérstök. Að nokkru leyti er um reiknaðar stærðir að ræða, enda var lánasafnið fært út gamla bankanum á töluverðum afslætti og samkvæmt endurskoðunarstöðlum þurfi að reikna virka vexti. Síðan hefur virði sumra lána aukist. Stærsti hluti af samanlögðum hagnaði bankanna er hjá Íslandsbanka, sem hefur verið að færa upp virði eigna sinna töluvert. Hagnaðurinn hjá Arion banka var minni.“ Telur bankann vera að fullnýta svigrúm sitt til afskrifta „Við kynntum lausnir fyrir okkar viðskiptavini í desember sem við teljum óhikað að séu betri en það sem hinir bankarnir bjóða upp á. Við höfum verið þráspurð af stórnvöldum, hagsmunasamtökum og fjölmiðlum hvort ekki sé meira svigrúm til að koma til móts við viðskiptavini bankans. Við teljum hins vegar að við séum að fullnýta það svigrúm sem við höfum. Ef það á að gera meira þá þýðir það að afkoma bankans versnar, það gengur á eigið fé hans og bankinn hefur einfaldlega ekki svigrúm til þess. Fjármálaeftiritið krefst þess að bankar hafi a.m.k. 16% eiginfjárhlutfall. Þetta hlutfall er rúmlega 16% hjá Arion banka um þessar mundir. Fari hlufallið undir 16% verða eigendur bankans að leggja honum til aukið fé. Ef við ætluðum að koma meira til móts við viðskiptavini okkar þá þyrftu eigendur bankans því að leggja honum til meira fé.“

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu.