Tap deCODE genetics á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam 13,3 milljónum dollara eða sama tap og á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Þetta samsvarar um 853 milljónum íslenskra króna. Nettótap fyrstu sex mánuði ársins 2005 nam 30,3 milljónum dollara (rúmlega 1,9 milljarðar kr.) samanborið við 25,3 milljónir dollara á sama tímabili 2004. Er aukið tap einkum sagt skýrast af auknum kostnaði við lyfjaþróun.

Sölutekjur á öðrum ársfjórðungi 2005 námu 11,4 milljónum dollara samanborið við 9,6 milljóna tekjur á sama tímabili í fyrra. Er því um að ræða tekjuaukningu upp á 1,8 milljónir dollara. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs námu tekjurnar 21 milljón dollara samanborið við 19,9 milljónir dollara á sama tímabili í fyrra. Þann 30. júní 2005 átti félagið inni 16,9 milljónir dollara í óinnleystar rannsóknartekjur sem koma fram í uppgjöri síðar.