Tap varð á rekstri Icelandair Group á fyrsta fjórðungi þessa árs upp á tæpa 18,3 milljónir dala, eða um 2,1 milljarð íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra nam tap fyrirtækisins 13,2 milljónum dala.

Rekstrartekjur fyrirtækisins jukust töluvert milli ára og fóru úr 157,7 milljónum dala í 173 milljónir. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar enn meira og fór úr 160,7 milljónum dala í 181,4 milljónir. Munar þar mest um níu milljóna dala hækkun launakostnaðar, sem nam á fyrsta fjórðungi þessa árs 52,1 milljón dala.

Tap fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, nam 8,3 milljónum dala í ár, en nam rúmum þremur milljónum dala á fyrsta fjórðungi 2012.

Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var í lok fjórðungsins 32% og handbært fé frá rekstri nam 78,5 milljónum dala, samanborið vð 86,1 milljón dala árið áður.

Í tilkynningu er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair, að afkoma fyrirtækisins í fjórðungnum hafi verið betri en afkomuspár hafi gert ráð fyrir og að áætlanir um áframhaldandi vöxt hafi gengið eftir. „Í byrjun árs gáfum við út EBITDA spá fyrir árið 2013 sem nam 115-120 milljónum dala. Afkoma fyrsta ársfjórðungs var nokkuð betri en sú spá gerði ráð fyrir auk þess sem rekstrarfhorfur eru almennt jákvæðar. Miðað við uppfærðar forsendur er gert ráð fyrir að EBITDA á árinu muni nema 122-127 milljónum dala.“