Vöruskipti voru jákvæð um 7,6 milljarða króna í febrúar. Það merkir að afgangur af vöruskiptum það sem af er ári, þ.e. á fyrstu tveimur mánuðum ársins, hafi numið 19,2 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Þrátt fyrir 5 milljarða króna minni afgang af vöruskiptum í febrúar á þessu ári en í fyrra þá dró afgangurinn í janúar heildartöluna upp. Þetta er með því mesta sem sést en á fyrstu tveimur ársins 2010 nam afgangur af vöruskiptum rúmum 19,5 milljörðum króna.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að vorur voru fluttar úr fyrir 49,6 milljarða króna og inn fyrir tæpa 42 milljarða króna í febrúar. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins nam verðmæti vöruútflutnings tæpum 105,4 milljörðum króna en verðmæti innflutnings 86,1 milljarði.

Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru iðnaðarvörur 53,3% alls útflutnings á fyrstu tveimur mánuðum ársins og jókst verðmæti þeirra um 0,5% á milli ára. Sjávarafurðir voru 42,6% alls útflutnings og jókst verðmæti þeirra um 8,9%. Á sama tíma dróst verðmæti vöruinnflutnings saman um 2,2 milljarða króna á milli ára, þ.e. um 2,5%. Mestu munar um minni innflutning á skipum og flugvélum.