Afgangur var á vöruskiptum við útlönd upp á 11,1 milljarð króna í ágúst, samkvæmt leiðréttum útreikningum Hagstofunnar.

Samkvæmt útreikningunum kemur fram að áður hafi verið stuðst við rangar forsendur um gengisbreytingar þegar tölur fyrra árs voru umreiknaðar.

Vörur voru fluttar út í ágúst fyrir 56,7 milljarða króna og inn fyrir 45,6 milljarða í mánuðinum. Vöruskiptin voru því hagstæð um 11,1 milljarða miðað við 7,5 milljarða í fyrra.

Á fyrstu átta mánuðum ársins nam verðmæti útflutnings 397,5 milljörðum króna en verðmæti innflutnings 331,5 milljörðum. Afgangur af vöruskiptum nam því 65,9 milljörðum króna, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Það er 9,7 milljörðum krónum minna en í fyrra.

Hagstofa Íslands