Aukning fiskafla íslenskra skipa nam 27% milli ára í júnímánuði, frá því í júní 2016. Hins vegar var verðmæti aflans á föstu verðlagi 7,2% minna en í júní fyrir ári. Nam fiskaflinn í síðasta mánuði 53 þúsund tonnum, en aukningin skýrist að öllu leyti af kolmuna að því er Hagstofan greinir frá.

Nam kolmunaaflinn í síðasta mánuði 15,5 þúsund tonnum, samanborið við tæp 2 þúsund tonn í júnímánuði í fyrra. Á sama tíma dróst botnfiskaflinn saman um 8% á milli ára, og fór hann úr 36 þúsund tonnum niður í 33 þúsund tonn. Veiddust rúm 18 þúsund tonn af þorski í síðasta mánuði, en það er 3% aukning frá því á sama tíma fyrir ári.

Nam heildaraflinn á 12 mánaða tímabili frá júlí 2016 til júní 2017 rúmlega 1,1 milljónum tonna, sem er um 5% meira en sama tímabil fyrir ári. Ef horft er til fimm ára meðaltals afla í júnímánuði á árunum 2012 til 2016 var aflinn 0,7% yfir meðaltalinu. Afli aflamarksbáta var hins vegar 1,2% meiri í júní á þessu ári heldur en meðaltal sama mánaðar síðustu ára, og afli strandveiðibáta var 5% minni.