*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 28. september 2020 12:03

Meiri áhrif á leiguverð en íbúðaverð

Á þessu ári hefur leiguverð hækkað um 2,7% milli ára en fjölbýli um 4,2%. Áhrif af fækkun ferðamanna á leiguverð komin fram að fullu.

Alexander Giess
Haraldur Guðjónsson

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,2% milli júlí og ágúst og er 12 mánaða hækkun leiguverðs nú 1,4%. Til samanburðar hækkaði kaupverð fjölbýlis um 0,7% milli júlí og ágúst og nam 12 mánaða hækkun íbúðaverðs þá 5,2%, nær fjórfalt meiri hækkun en á leiguverði.

Sagt er frá því í hagsjá Landsbankans að lækkun á leiguverði fór að gera vart við sig upp úr áramótum. Lækkunin var sem mest í maí þegar leiguverð lækkaði um 2,2% milli mánaða, sú lækkun hefur nú gengið til baka. Það sem af er ári hefur leiguverð hækkað að jafnaði um 2,7% milli ára en kaupverð fjölbýlis um 4,2%.

Áhrif af fækkun ferðamanna á almennan leigumarkað að mestu komin fram

Við fækkun ferðamanna jókst framboð leiguhúsnæðis til almennings. Telur Landsbankinn að þau áhrif hafi að mestu leiti komið fram nú þegar. Talið er að eftirspurn muni ráða því hvort þróun á leiguverði muni halda áfram að þróast með fyrri hætti. Þar gætu aðgerðir stjórnvalda haft áhrif, meðal annars hlutdeildarlánin.

Sjá einnig: Einn studdi ekki hlutdeildarlán

Þegar sem flestir ferðamenn komu til landsins voru um 3.500 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu skráðar til útleigu á vef Airbnb. Í ágúst voru um 1.600 íbúðir skráðar. Mánaðarlegt framboð Airbnb íbúða hefur dregist saman um 45% milli ára og nýting hefur dregist saman um allt að 88%.

Sjá einnig: Atvinnuhúsnæði lækkað um 21%

Talið er að framboð af leiguhúsnæði hafi aukist talsvert, meira en sem nemur aukningu í eftirspurn. Frá júní til ágúst á þessu ári var að jafnaði þriðjungi fleiri leigusamningum þinglýst en ári áður. Mestu munaði í júnímánuði þegar 610 leigusamningum var þinglýst, 60% fleiri en í júní ári áður.

Fram kemur að aðsókn leigjenda í húsnæðisbætur hafi ekki aukist, þrátt fyrir fjölgun þinglýstra leigusamning. Slíkt gæti verið til marks um að leigjendum sé ekki að fjölga heldur að breyting sé að eiga sér stað inn og út af markaðinum. Einnig gæti það þýtt að færri leigjendur falli undir skilyrði þess að eiga rétt á bótum.