Því fylgir áhætta að fjárfesta í áli og orku, eins og öðrum fjárfestingum, en meiri áhætta er tekin með því að gera það ekki. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallar Íslands, á ráðstefnu SA, SI og Samorku ? Orkulindinni Ísland.

Þórður fjallaði um umfang virkjana og álversframkvæmda í þjóðarbúskapnum, um ástand og horfur á álmarkaði í heiminum og um framkvæmdir við virkjanir og álver og hagstjórnarvandann um þessar mundir. Hann sagði stefna í að Ísland yrði komið í hóp stærstu álútflutningsríkja í heimi. Nýting orkulindanna og álframleiðslan hefði tvímælalaust efnahagslegan ávinning í för með sér en spyrja þyrfti hvort ótæpilega mikil áhætta væri tekin og hvort of geyst væri farið á þessu sviði. Áhrifin á útflutning eru hins vegar ótvíræð og í ljósi þess hversu háðir Íslendingar eru innflutningi er efling útflutnings tvímælalaust jákvæð, að sögn Þórðar.

Óvissa um þróun álverðs

Þórður sagði álframleiðslu hafa aukist ört í heiminum undanfarin ár og að margir óvissuþættir væru um þróun álverðs. Til lengri tíma litið væri þó almennt reiknað með því að raunverð áls myndi heldur lækka, en þó ekki mjög ört, vegna aukinnar framleiðni og samkeppni við aðra málma og iðnaðarhráefni. Álver munu að mati Þórðar helst verða byggð þar sem völ er á orku á samkeppnisfæru verði og helst þar sem lítil önnur not eru fyrir orkuna. Þetta sagði hann eiga við um Ísland. Að því marki sem Íslendingar vildu verða sér úti um efnahagslegan ávinning af orkulindunum væri álframleiðsla besti kosturinn vegna þess hversu raforkunotkunin vegur þungt í framleiðslukostnaðinum.

Þensluástand og hagstjórnarvandi

Þórður fjallaði um þann mikla uppgang sem nú er í þjóðarbúskapnum og sagði hann jaðra við ofþenslu. Fjárfesting í virkjunum og álverum ætti talsverðan þátt í örri aukningu þjóðarútgjalda og beint og óbeint í viðskiptahallanum. Þar kemur þó margt fleira til og nefndi Þórður t.d. breytingar á fjármálamarkaði, greiðari aðgang að lánsfé, grósku í viðskiptalífinu og skuldabréfaútgáfu erlendra aðila í íslenskum krónum. Þórður sagði varhugavert að reiða sig á mjúka lendingu að núverandi þensluskeiði loknu. Lendingin gæti orðið harkaleg með gengisfalli og skörpum samdrætti þjóðarútgjalda. Verkefnið er þó að mati Þórðar viðráðanlegt og niðurstaðan undir okkur sjálfum komin.

Loks sagði Þórður því fylgja áhætta að fjárfesta í áli og orku, eins og öðrum fjárfestingum, en en hann sagði meiri áhættu tekna með því að gera það ekki. Þá væri mikilvægt að markaðsvæða orkufyrirtækin, sem gæfi þeim aukið svigrúm og tryggði að ákvarðanir yrðu teknar á viðskiptalegum forsendum.