Mun meiri andstaða er við það að Ísland gangi í Evrópusambandið á meðal íbúa utan höfuðborgarsvæðisins en íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að 58,7% þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið. 21,4% þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins eru hlynntir inngöngu en 19,3% eru hvorki hlynntir né andvígir inngöngu.

Á höfuðborgarsvæðinu eru 48,6% andvígir inngöngu í Evrópusambandið á meðan 34,2% eru hlynntir. 17,2% eru hvorki hlynntir né andvígir.

Eins og fram hefur komið benda niðurstöður sömu könnunar til þess að meirihluti Íslendinga sé á móti inngöngu í Evrópusambandið. Eins og VB.is greindi frá í gær benda niðurstöður einnig til þess að einungis 10% sjálfstæðismanna vilji inngöngu. Könnunin var gerð dagana 11.-15. febrúar 2014.