Búferlaflutningar frá landinu á síðasta ári voru umtalsvert meiri en þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands gerði ráð, samkvæmt upplýsingum frá Þórarni G. Péturssyni aðalhagfræðingi bankans. Gert var ráð fyrir fækkun eða samdrætti upp á 0,5% á síðasta ári en reyndin varð 1,5%, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.

Á síðasta ári fluttu 4.835 fleiri frá landinu en til þess. Aldrei áður hafa fleiri flutt frá landinu frá því mælingar á því hófust. Þórarinn segir Seðlabankann hafa gert ráð fyrir að samdrátturinn kæmi fram á þessu ári og því yrði brottflutningur frá landinu meiri á þessu ári en því síðasta. Hann vildi þó ekki upplýsa nákvæmlega um forsendur fyrir þjóðhagsspánni umfram það sem greint er frá í Peningamálum Seðlabankans. Að sögn Þórarins er það vinnuregla þar sem upplýsingar sem bankinn veitir út á við eru verðmyndandi á markaði, ekki síst skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði.