Með sífellt fleiri og stærri viðburðum af öllu tagi hér á landi hefur þörfin á fólki með reynslu og þekkingu á því að halda utan um þá aukist og hafa bæði Háskólinn á Hólum sem og Opni háskólinn í HR svarað því kalli.

Í Ferðamáladeild Háskólans á Hólum er diplómanám í viðburðarstjórnun ein af fimm námsleiðum sem eru í boði.

Um er að ræða 60 ECTS eininga hagnýtt nám á háskólastigi sem jafnframt er grunnur fyrir frekara nám til dæmis í ferðamálafræði og stjórnun ferðaþjónustu.

Í náminu er lögð áhersla á samþættingu hagnýtra og fræðilegra þátta viðburðastjórnunar ásamt því að byggt er á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, að því er fram kemur í umfjöllun um námið frá háskólanum.

Nemendur æfa sig í að stýra viðburðum

Námið er fyrir þá sem vilja starfa við hvers konar viðburðastjórnun sem og þá sem þegar starfa við hana, til dæmis á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka eða í einkarekstri sem og þá sem starfa við ráðgjöf á sviði menningar og atvinnumála.

Náminu er ætlað að auka skilning á eðli og áhrifum viðburða ásamt því að nemendum er falið að standa í raunverulegum verkefnum sem fela í sér æfingu í að stýra viðburðum. Felur námið í sér fyrirlestra frá sérmenntuðum kennurum og gestafyrirlestra úr atvinnugreininni auk vettvangsferða út í atvinnulífið tengt viðburðastjórnun.

Námskeiðin sem kennd eru í náminu eru: Viðburðarstjórnun, Markaðsfræði, Ferðamál, Fjárhagur og rekstur, Viðburðastjórnun og samfélag, Verklag í námi og starfi, Stjórnun og Straumar og stefnur í viðburðastjórnun.

Síðast en ekki síst er námskeiðið Verknám í viðburðastjórnun þar sem nemendur taka þátt í undirbúningi, skipulagi, framkvæmd og eftirvinnslu raunverulegs viðburðar og er reiknað með að þar sé um að ræða alls 200 stundir á verknámsstað.

Áskell Heiðar Ásgeirsson, umsjónarmaður viðburðanámsins á Hólum, segir mikla eftirspurn vera eftir þekkingu á sviði viðburðastjórnunar. „Þær eru nánast að verða óteljandi allar þær hátíðir og ýmiss konar viðburðir sem fram fara um allt land, ekki síst yfir sumartímann.“

Nánar má lesa um málið blaðinu Fundir og ráðstefnur sem fylgdi Viðskiptablaðinu 9. febrúar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .