Verðmæti þeirrar hækkunar á aflaheimildum sem úthlutað er á nýju fiskveiðiári sem hófst í gær gæti numið 20 milljörðum króna miðað við núverandi verðforsendur, að sögn Þorseins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hann segir í samtali við Fréttablaðið í dag að aukningin gæti numið 1% aukningu á landsframleiðslu og gæti það boðað betri tíð í þjóðarbúskapnum eftir að hægt hafi á hagvexti á undanförnum misserum.

Fiskveiðiárið hófst í gær og var alls úthlutar 381.431 þorskígildistonni. Ef verðmiði er settur á aukningu aflamarksins gæti hún numið um 20 milljörðum króna.

„Ef stjórnvöldum tekst að aflétta þeirri óvissu sem einkennt hefur rekstrarumhverfi sjávarútvegs undanfarin ár vegna óvissu um framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnunar sem og stóraukinnar skattbyrði greinarinnar þá má einnig reikna með því að fjárfestingar aukist nokkuð í sjávarútvegi á nýjan leik. Slíkt myndi einnig hafa afar jákvæð áhrif á hagvöxt enda fjárfestingar verið hættulega litlar hér á landi undangengin fimm ár,“ segir hann.