Það er enginn nýr sannleikur að undanfarin ár hefur fjárfestingu verið mjög ábótavant í íslenska hagkerfinu. Á það jafnt við um fjárfestingu í einkageiranum og opinbera fjárfestingu. Sést það einna best á því að á árunum 2000 til 2008 var hlutfall fjármunamyndunar af vergri landsframleiðslu að meðaltali um 24% og var mest 34% árið 2006. Á árunum 2009 til 2013 var þetta hlutfall hins vegar tæp 12%. Í umfjöllun Financial Times um þýska hagkerfið, sem lesa má í Viðskiptablaðinu í dag, kemur m.a. fram að þetta hlutfall sé þar í landi um 17% og sé bæði vel undir meðaltali annarra Evrópuríkja og lægra en það ætti að vera til að tryggja hagvöxt til framtíðar. Þetta sé langtímavandamál og að fjárfesting hafi um árabil verið of lítil.

Í greininni kemur einnig fram að Þjóðverjar eru nú farnir að finna fyrir afleiðingum þessarar fjárfestingarfælni. Vörubifreiðar yfir 3,5 tonnum megi t.d. ekki lengur keyra yfir eina af mikilvægustu brúm yfir Rínarfljót vegna þess að brúin er í svo mikill niðurníðslu. Þetta er eitt dæmi, en það segir sína sögu. Líklega var óumflýjanlegt að fjárfesting drægist saman í kjölfar hrunsins 2008, en árið 2009 var fjármunamyndun helmingi minni en hún var árið áður sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er hins vegar mikið áhyggjuefni að hún hefur enn ekki náð sér á strik. Hlutfall fjármunamyndunar af landsframleiðslu var 12 í fyrra, rétt eins og það var árin 2011 og 2012. Eitthvað þarf að gera, en því miður er þetta ekki vandi sem leystur verður með einu pennastriki.

Fólk á það til að ofmeta getu stjórnvalda til að hafa áhrif til hins betra á atvinnulífið og markaðinn, en þau geta mjög auðveldlega skemmt fyrir. Skattahækkanir og skattalagabreytingar sem gerðu arðgreiðslur illmögulegar gerðu sitt til að draga úr fjárfestingu. Allar þreifingarnar í átt að gerbreyttu fiskveiðistjórnunarkerfi drápu nær alla fjárfestingu í atvinnugreininni á algerlega röngum tíma. Stærsta einstaka efnahagsaðgerð núverandi stjórnvalda, skuldaleiðréttingin svokallaða, mun að öllum líkindum ýta mjög undir einkaneyslu, þegar skuldaþak einstaklinga lækkar, en ekki er að sjá að hún muni hvetja til fjárfestingar.

Glitta má í ljós í myrkrinu, því að minnsta kosti tvær stórar kísilverksmiðjur verða væntanlega reistar á Íslandi á næstu árum. Þá virðist byggingariðnaðurinn vera að taka við sér eftir langt hlé. Tvennt þarf þó að gerast í heimi stjórnmálanna. Annars vegar þarf að stíga fram og færa skattlagningu á fjármagnstekjur og tekjur fyrirtækja aftur í það horf sem var fyrir hrunið. Atvinnulífið blómstrar ekki almennilega ef það þarf að standa undir of þungri skattbyrði og þar af leiðandi verða skatttekjurnar ekkert til að hrópa húrra yfir heldur. Hins vegar þurfa stjórnmálamenn í öllum flokkum að láta af þeim leiða ávana að kvarta, kveina og breiða út samsæriskenningar í hvert sinn sem erlendur fjárfestir sýnir landinu áhuga. Vilji útlendingur fjárfesta hér á landi, hvort sem það er í hitaveitufyrirtæki, landi eða fjármálafyrirtæki á hann að sitja við sama borð og heimaaldir peningamenn.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu 4. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .